Leita í fréttum mbl.is

Kofi Hós frænda

In 1954 the North was liberated but the South was invaded by the Americans and the South Vietnamese government. They wanted a private state ruled by capitalism.

Einhvern veginn svona hljómaði söguskýringin sem okkur var boðin á skoðunarferð okkar um Endursameiningarhöllina í Saigon sem áður hýsti bústað og skrifstofur forseta S-Víetnam. Þótt engan undraði orðavalið í opinbera túrnum þá þótti mér annar Víetnami komast nær kjarnanum tveimur dögum síðar.

In the North they call it anti-imperialist war. In the South we call it the civil war. It was a tragedy for my people.

Frá því að skriðdrekar ruddust inn um hlið forsetahallarinnar hér í Saigon 30. apríl 1975 hefur borgin formlega heitið Ho Chi Minh borg (skoðanir ku þó vera skiptar um hvort þeim gamla hefði líkað að vera tekinn í dýrlingatölu). Þótt menn hafi samfara nafnbreytingunni reynt að bæla niður ódæla íbúa borgarinnar og þeirra spilltu lífshætti tókst þeim aldrei meir en að slæva borgarlífið. Samfara auknu frelsi og velmegun (hið síðarnefnda hvað mest hér í landinu) vaknaði borgin til lífsins. Þrátt fyrir opinberu nafngiftina er borgin og verður Saigon. Maður verður allavega lítið var við nokkurt sem minnir á kommúnismann. Byltingarfánann sér maður bara á opinberum byggingum en þó aðallega á búkum erlendra ferðalanga (já, ég og Jónas erum báðir búnir að kaupa okkur bolinn). Sama er að segja um Ho Chi Minh sjálfan - hann sést bara á peningaseðlunum, kannski viðeigandi að það sé so mikið af þeim í borg með hans nafni?

Við höfum lifað góðu lífi hér í borg. Fyrir mitt leyti get ég sagt þetta einn skemmtilegasta áfangastaðinn í ferðalaginu. Saigon hefur sterkan karakter. T.a.m. gæti ég nefnt umferðina sem virðist bara vera ein stór óreiða sem teygir anga sína um allar götur - hálf Saigon virðist alltaf vera á leiðinni eitthvað. Lætin eru líka ofboðsleg, það fylgir náttúrulega umferðinni en líka heyrir maður alltaf síma hringja, fólk í samræðum og það er líka til stétt manna sem að hjólar um göturnar með hristu í hendinni. Tilgangur þeirra er okkur öllum óljós nema þá til að skapa meiri læti. Um leið finur maður hinn hæga, slaka takt lífsins þegar maður sest inn á gott kaffihús og pantar sér stóran ískaffi.

Við tókum því líka fagnandi að komast í almennilega skemmtun upp á vestræna mátann og höfum t.d. stundað keilu stíft. Eitthvað sem manni myndi aldrei detta í hug heima. Mesti skemmtidagurinn var þó sl. fimmtudag þegar við drengirnir gengum í barndóm og heimsóttum Dam Sen vatnsleikjagarðinn. Sá er þetta ritar hafði aldrei áður séð svona margar og flottar vatnsrennibrautir. Þarna hlupum við um milli tækja enda lítið að gera og því engar biðraðir. Draumur hins níu ára drengs. Enda var það svo að kúnnahópurinn þennan morguninn samanstóð helst af stórum hópi leikskólabarna í barnalauginni og stórum hópi vestrænna karlmanna í stóru-barnalauginni (okkur til málsbóta, þá vorum við ekki þeir einu!)

Þrátt fyrir líf og fjör þá er líka margt annað að sjá, sérstaklega úr fortíð þessarar þjóðar. Daginn eftir buslið fórum við þá skylduför sem það er að heimsækja Stríðsminjasafnið. Það fengi svo sem aldrei nein hlutleysisverðlaun en það skiptir bara engu máli. Sjónarhornið skiptir engu þegar maður stendur frammi fyrir grimmdinni og sturluninni sem stríð eru. Styrkur safnsins felst einmitt í að það setur fram vitnisburð um hryllinginn sem stríð eru. Ætti það ekki að vera boðskapur allra stríðsminjasafna í veröldinni?

Nóttina eftir döguðum við á Apocalypse Now og drukkum út The End með Doors. Klukkutímum síðar rönkuðum við við okkur á hnjánum, helþunnir, skríðandi í gegnum göng sem Víet Cong skæruliðarnir höfðu grafið. Síðustu skoðunarferðina í Saigon fórum við út fyrir borgina og heimsóttum þar þorpið Cu Chi en í frumskóginum þar í kring grófu VC sér neðanjarðarbækistöðvar inn í miðju S-Víetnam. Þar kúldruðust menn og konur á daginn meðan Kaninn lét rigna sprengjum yfir svæðið og á næturnar fóru menn um göngin sem þeir höfðu grafið undir herstöð Ameríkana og létu eldi rigna, innan frá. Fyrir utan að manni er leyft að skríða um göngin sjálf er manni svo líka sýndar manndrápsgildrurnar sem voru egndar fyrir kanann en það allra hallærislegasta voru vélrænu gínurnar sem tálguðu bambusspjót og söguðu sprengjuodda, svona eins og jólasveinarnir í Rammagerðinni.

Nú eru Gunnar og Hrafnkell horfnir á vit nýrra ævintýra og innan við sólarhringur þar til við Jónas höldum heim. Maður kveður Saigon sáttur við ferðina, lífið og einn ískaffi við Notre Dame.

Ásgeir Pétur Þorvaldsson talar frá Saigon.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góða ferð heim Ásgeir og Jónas! Það liggur við að maður tárist bara smá þegar maður les þessar færslur stundum. Bæði út af lýsingum ykkar á stríðum og hörmungum sem þessar þjóðir hafa þurft að ganga í gegnum, en líka út af því að þið eruð greinilega svo góðir vinir og sorglegt að hinir fjórir fræknu eru allt í einu orðnir bara tveir. En við Gunnar og Hrafnkel vil ég segja: Skemmtið ykkur rosa vel það sem eftir er ferðarinnar, ég öfunda ykkur ekkert smá að vera á þessu ferðalagi, þvílík lífsreynsla!

knús, dóragunnasystir

dóra (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Ferðafélagið fall
Ferðafélagið fall
Ferðafélagið Fall er eins og nafnið gefur til kynna félagsskapur sem hefur þá lífsskoðun að fall sé fararheill. Því stendur félagið núna í einhverju glórulausu heimshornaflakki. Hér birtast tíðindi úr þeirri útferð.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband