9.3.2007 | 13:59
Ko Chang + Beer Chang = Changover
Titill færslunnar er fyndnasti brandari sem einhver hippinn hér á eyjunni Ko Chang hefur náð að klambra saman í sósaðri sólleginni útlegð. Svona til gamans má geta að Chang er einmitt tælenska orðið fyrir fíl.
Við höfum síðan á þriðjudag dvalist á Fílaeyju (Ko er eyja á tælensku). Þegar ég skrifaði síðustu færslu vorum við að leggja af stað í ferðina hingað suður eftir. Ferðin tók 20 tíma í allt og var að mestu farin í rútum. Um leið og við komum til eyjarinnar tóku moskítóflugurnar mér fagnandi og hafa gætt sér óspart á blóði mínu. Ég hef talið 11 bit hingað til. Ég hef skorið upp herör gegn vargnum og geng helst ekki í öðru en langerma og síðskálma fötum.
Það er hinsvegar mjög óþægilegt til lengdar því það getur orðið mjööög heitt á daginn. Þá er ekki um annað að ræða en að skella sér á ströndina. Svona til að uppfræða lesendur þá er Ko Chang aðallega skógi vaxið hálendi. Í skóginum er svo að finna alls kyns pestir sem hvítir menn vilja ekki koma nálægt. Aftur á móti hefur eyjan líka upp á að bjóða sendnar strendur og heitan sjó og er það aðalástæða þess að við erum almennt á staðnum.
Við búum núna í tveimur kofum á hóteli sem nefnist Oasis. Það er staðsett í skógarjaðrinum og er þægilega einangrað frá stöðunum í kring. Á hótelinu er geysistór verönd þar sem maður getur slappað af í blænum frá sjónum, spilað og étið allan daginn. Er þetta einhver afslappaðasti staður á jarðríki. Ekkert fær truflað róna, ekki einu sinni þegar Jónas og Hrafnkell stífluðu klósettið í kofanum sínum. Staðurinn er rekinn af Þjóðverja nokkrum og gullfallegri tælenskri konu hans. Jónas og Hrafnkell sáu strax að hér væri um þeirra eigin dagdraum að ræða: paradís í suðurhöfum með innlendri snót!!! Þeir hafa því lagt mikið á ráðin hvernig þeir eigi að ryðja hinum þýska úr vegi en eftir klósettstífluskandalinn má segja að sjálfstraustið hafi beðið hnekki.
Þetta eru búnir að vera letilífsdagar. Ströndin okkar heitir Lonely Beach og hér er ekkert annað að gera en að slæpast, hvort sem það er í hengirúmi á veröndinni góðu eða niðri á strönd. Okkur til málsbóta tek ég fram að við lesum bækur af miklum móð. Við leyfum menningunni að njóta sín líka! Á kvöldin hafa menn svo fátt annað fyrir stafni en að sitja yfir nokkrum flöskum af Beer Chang, Fílabjór (aha!) en það er vinsælasti bjórinn hér um slóðir. Mjöðurinn sá er bæði í senn rammsterkur og ódýr. Þar af leiðir Changover en það er ástand sem langflestir hér um slóðir lifa í flesta daga.
Einhvern tíma í næstu viku rífum við okkur upp af rassgatinu og þá verður eflaust frá meiru að segja.
Þangað til, hafið það gott!
Tenglar
Myndir!
- Gunnars
- Jónasar Jónas er einnig þekktur sem Flash-Boy.
- Hrafnkells Keli er mjög næmur á fegurð hlutanna.
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.