Leita í fréttum mbl.is

Oh, my Buddha!

Gunnar stakk höfðinu inn um tjaldið fyrir kojunni minni, "Vaknaðu! Það eru bara tíu mínútur þangað til við verðum komnir". Ég leit á úrið mitt, svipti svo gluggatjöldunum frá og leit út um lestargluggann. Sá ekkert nema skógi vaxnar hæðir. "Fíflið þitt, við erum ennþá lengst út í sveit. Við komum ekki inn á stöð fyrr en eftir tvo tíma. Farðu aftur að sofa." hreytti ég út úr mér. "Ég get ekki sofið því mér er svo kalt. Loftkælingin er að drepa mig." svaraði hann. Ég keypti mér svefnfrið með því að múta Gunnari með teppi. Tveimur tímum síðar vorum við svo sannarlega komnir til Chiang Mai.

Chiang Mai er stærsta borg N-Tælands. Hún var um aldir höfuðborg Lanna-ríkisins en það stóð hér um slóðir og skipar háan sess í þjóðarvitund Tælendinga enda margt merkilegt að sjá. Til að mynda þá skilst mér að hér séu flest hof á ferkílómetra í öllu landinu.

Á lestarstöðinni vorum við veiddir um borð í rútu sem skutlaði okkur á hótel eitt þar sem okkur var boðin gisting í skítugri holu á sjöttu hæð í afar óvistlegri blokk. Sem betur fer voru okkur samferða Þjóðverjar sem voru á leiðinni á ágætis gistiheimili og gátu því vísað okkur þangað. Á Somwang Guesthouse tókum við ódýrustu herbergin en í þeim var boðið upp á viftu (fínt, maður fær bara kvef af loftkælingu), kalda sturtu (fínt, maður svitnar bara meira eftir heita sturtu) og rúm úr steypu. Enginn okkar hafði nokkurn tíma séð steypurúm annarsstaðar en á gistiheimili lögreglunnar í Reykjavík. Ef einhver á eftir að ranka við sér í þeim vistarverum þá er trikkið að sofa á bakinu. Ef maður sef á hlið þá lokar maður algjörlega á blóðflæðið í útlimina og vaknar einhverntíma um nóttina, dofinn í helmingi líkamans.

 Fyrstu tvo dagana í Chiang Mai vorum við í raun úrvinda eftir dvölina í Bangkok. Það fór lítið fyrir menningarlegum tilgangi ferðarinnar þar sem dagarnir fóru í lítið annað en svefn á daginn og spil á kvöldin. Á þriðja degi var útivistarráð félagsins farið að ókyrrast. Hrafnkell var orðinn mjög pirraður á letinni svo að hópurinn (nema Jónas, sem að hékk á netkaffi í sjö klukkutíma þann daginn) dreif sig út á næstu ferðaskrifstofu og skráði sig í þriggja daga gönguferð.

Okkur var lofað gönguferð um friðsæl svæði með fáum túristum, að við yrðum eini hópurinn á stígnum og að ekki yrðu fleiri en 12 í hópnum. Þegar við mættum á staðinn kom í ljós að það voru litlar búðir sem að seldu kók og bjór með stuttu millibili á stígnum, við fylgdum öðrum hópi hluta leiðarinnar og það voru 13 manns í hópnum. Silence is golden, words are cheap.

 Hópurinn var ágætur en hann var skipaður fulltrúum fjögurra þjóða. Fyrsta ber að nefna okkur sjálfa, fjóra unga skjaldbera Íslands. Þá næst voru Hollendingarnir Nikolas og Katrin (borið fram eins og með hárbolta í kokinu) en þau voru eldra par sem ákvað að njóta þess í Tælandi að ungarnir væru flognir ú hreiðrinu. Það runnu á okkur tvær grímur þegar Frakkarnir komu í bílinn enda fimm manna fjölskylda þar á ferð. Við gerðum ráð fyrir að Philippe og Isabella ásamt tvíburunum og Lucian litla, sem var 5 og 1/2 árs (Jónasi tókst að skilja það sem 9 og 1/2 árs), myndu tefja hópinn og dragast aftur úr. (Þess má geta að Philippe og Isabelle reka veitingastaðinn D´Steinmuehl í Strasbourg. Boðið upp á hefðbundna rétti frá Alsace héraði. Sími (+33) 03 88 81 88 91.) Síðasta ber svo að nefna Ástralana tvo, bókarann Kieran og námumælingamaðurinn Wayne. Þeir tveir voru heimshornaflakkarar (90 lönd í bankanum) á síðustu metrunum aftur heim en þeir voru að ljúka árstúr. Til að koma í veg fyrir að það kæmist upp um okkur þegar við töluðum illa um félaga okkar þá notuðum við ekki fremur alþjóðleg orð eins og Holland eða Ástralía. Hollendinga kölluðum við appelsínugula, Ástrali Suðurálfumenn eða bara Sunnlendinga og Frakkana nefndum við froska. Nema hvað.

Gangan sjálf var frekar ómerkileg. Labb um yfirgefna hrísgrjónaakra, upp og niður hæðir vaxnar þéttum skógi og síðan stoppað í þorpum sem byggðu lífsafkomu sína á að selja túristum drykki og minjagripi. Við fengum samt nóg að éta en við matarborðið sýndum við mikinn metnað í að borða sem mest og klára af öllum diskum. Undir lokin var það orðin skemmtun hinna í hópnum að bera í okkur alla afganga og sjá hversu lengi við entumst. Á kvöldin sat hópurinn við varðeld og spjallaði saman um heima og geima. Jónas tók ástfóstri við Ástralana og kjaftaði á honum hver tuska alla ferðina.

Ferðin náði þó tveimur hápunktum sem gerðu hana ómaksins virði. Á öðrum degi ferðarinnar fengum við far á fílsbaki um klukkustundar leið. Hrafnkell og Jónas gripu að sjálfsögðu tækifærið til að monta sig af ævintýrum sínum í Nepal og hvað þeir hefðu séð þetta allt og meira áður. Við hin gátum hinsvegar dáðst að þessum tignarlegu skepnum enda fæst verið í návígi við fíl áður og nutum röltsins í botn. Langmesta skemmtunin kom þó í lok ferðarinnar en þá fórum við á bambusfleka niður á. Við fórum allir fjórir á einn fleka ásamt leiðsögumanni. Það er skemmst frá því að segja að við vorum langseinastir niður ána og entumst þurrir í 6 sekúndur. í lengra máli þá vorum við allir svo þungir að flekinn maraði hálfur í kafi, við strönduðum á öllum steinum, veltum flekanum aftur og á ný (oftast viljandi), rákum stjórnlaust yfir flúðir og skullum á klettum þannig að menn köstuðust út í iðuna og urðu að berjast við að halda sér á floti. Skipstjórinn okkar hélt ítrekað um höfuð sér og þegar illa stefndi hrópaði hann, "Oh, my Buddha!". Fyrst enginn gat sér um þurrt höfuð strokið og flekinn hélt einungis saman á þrjóskunni  var ljóst að við myndum reyna að draga alla þá sem við sigldum fram á út í ána. Nóg var af flekunum í ánni og þegar við náðum í skottið á fleka renndum við upp að honum og stukkum svo út í með herópi.  Þegar við höfðum vætt alla sem fyrir voru brunuðum við niður ána með sigurópi: renn-denn-denn!!! Allir tóku þátt í gusuganginum því asíubúar er vitlausir í góðan vatnsslag.

Þegar við komum aftur til Chiang Mai fengum við ný herbergi á Somwang, í þetta skiptið með rúmum fyrir löghlýðna borgara. Þá um kvöldið höfðum við mælt okkur mót við Ástralana til að horfa á Liverpool-ManU. Kieran og Jónas horfðu sorgmæddir á sína menn lúta í gras og ákváðu að drekkja úrslitunum. Við hinir tókum þátt í erfidrykkjunni sem átti eftir að berast út um víðan völl. Við brunuðum á tuk-tukum út um allan bæ þar til við rákumst á nokkra Bandaríkjamenn sem að við neyddum til að taka þátt í alls kyns íslenskum hefðum og athöfnum sem við fundum upp á staðnum, að sjálfsögðu. Að lokum hittum við hóp af Dönum inni á frönskum bar og sátum sem fastast á meðan eigandinn, akfeitur Frakki, reyndi að henda okkur út enda löngu komið yfir löglegan opnunartíma.

Daginn eftir voru menn allharkalega timbraðir og Jónas sá þunnasti síðan smjörpappír var fundinn upp. í tilefni af því var haldið inn í hjarta vestrænnar menningar, McDonalds. Til að koma skikki á magann og lyfta lóðum af huganum dugði ekkert minna en 19 ostborgarar, 1 tvöfaldur Big Mac, 6 stór glös af Kóka-kóla, 3 McFlurry og einn lítill franskar. Starfsfólk átti erfitt með að halda andliti. Áralangur draumur okkar hafði loksins ræst.

Að lokum má nefna það að við erum núna að bíða eftir að rútan okkar til Bangkok leggi af stað. Við ætlum okkur ekki að dvelja neitt í Bangkok heldur komast áfram þaðan til eyjarinnar Ko Chang, sem er suðaustan við Bangkok, rétt hjá landamærum Kambódíu. Ef allt gengur vel (við rennum blint í sjóinn, því við erum svo miklar pæjur) þá verðum við komnir þangað annað kvöld.

 Þangað til,

Salut!


Bloggfærslur 5. mars 2007

Höfundar

Ferðafélagið fall
Ferðafélagið fall
Ferðafélagið Fall er eins og nafnið gefur til kynna félagsskapur sem hefur þá lífsskoðun að fall sé fararheill. Því stendur félagið núna í einhverju glórulausu heimshornaflakki. Hér birtast tíðindi úr þeirri útferð.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband