7.4.2007 | 11:24
Matreiðsluhorn ferðafélagsins
Víetnamskar sveitapönnukökur (2 stk):
100g rækjur
100g svínakjöt
50g hrísgrjónahveiti
1/2 tsk saffron
1/2 bolli vatn
4 msk jurtaolía
1/2 bolli sojabaunir
1/2 bolli kál
1/2 bolli fiskisósa með chilli
4 hrísgrjónapappírskökur
Hrísgrjónahveitinu, saffroninu og vatninu (smám saman) er blandað saman í skál. Olían hituð a pönnu, rækjurnar og svínið sett á. Upphafsblöndunni svo hellt yfir, þannig að hún fylli botnflöt pönnunnar. Látið malla á pönnunni þar til pönnukakan er orðin stökk (u.þ.b. 3 mín). Kakan brotin saman og fjarlægð.
Hrísgrjónapappírskökurnar bleyttar upp úr vatni og lagðar yfir einn disk hver. Pönnukökurnar skornar í tvennt og hver fjórðungur lagður á disk. Káli bætt i eftir smekk. Að lokum eru svo kökurnar rúllaðar upp í hrísgrjónapappírnum, dýft í fiskisósu-chillíið og borðaðar. Mjög, mjög gott.
Við Gunni skelltum okkur semsagt á matreiðslunámskeið í Hoi An. Lærðum þar að elda þrjá rétti, en auk pönnukakanna elduðum við önd i appelsínusósu og kjúkling í chilli og sítrónugrasi. Tveir réttanna voru mjög góðir en einn þeirra arfaslakur (öndin). Matseldin í öllum tilvikum frábær og ástríðan leyndi sér ekki. Þetta verður örugglega ekki síðasta námskeiðið sem við Gunni sækjum, en planið er að koma heim með gráðu í vasanum. Í hverju þessi gráða verður á eftir að koma í ljós, hvort það verður í matargerð, leirkerasmíð, nálastungum...
Bærinn Hoi An er aðallega þekktur fyrir þrjá hluti: gamlan bæ á heimsminjaskrá, endalausa klæðskera og matreiðslunámskeið. Nánast hver og einn einasti veitingastaður þar í bæ býður upp á svona námskeið. Maður einfaldlega velur þrjá rétti af matseðlinum sem manni langar til að elda, borgar 6 dollara, eldar og borðar. Gerist ekki mikið einfaldara.
En ferðin langa frá Saigon til Hanoi heldur áfram. Komnir frá Hoi An til Hue, sem eitt sinn var höfuðborg Víetnam. Á morgun er það svo lokaáfanginn, Hue til Hanoi, en það verða án efa ánægjulegir 12 tímar í næturrútunni. Stefnum semsagt á að vera í Hanoi á mánudagsmorgni sem gerir þetta að 8 daga ferðalagi.
Leigðum okkur hjól í dag til að skoða Hue og til að komast i grafhvelfingu konungsins Te Doc (ca 1840-1880) sem er nokkra kílómetra fyrir utan borgina. Villtumst nokkrum sinnum eins og lög gera ráð fyrir en komumst á áfangastað að lokum. Grafhvelfingin er í raun nokkurskonar þorp þar sem hinn 153 cm hái konungur Te Doc bjó síðustu fjögur ár ævi sinnar með viðhöldunum sínum, en fyrir utan þær átti hann 104 konur. Dó samt barnlaus. Í þessu þorpi er grafhýsið hans, hvar hann er ekki jarðaður af ótta við grafarræningja. Lét þess í stað grafa sig á leynilegum stað, og til þess að halda honum leynilegum voru þeir 200 þrælar sem grófu hann hálshöggnir. Þessir konungar maður...
Annars eru komnir brestir í ferðafélagið. Þetta byrjaði allt í gær þegar við komum til Hue. Klukkan var um eitt þegar rútan okkar kom á áfangastað og úti var rigning, e-ð sem ekki hefur gerst lengi lengi. Skráðum okkur inn á hótel á fimmtu hæð og köstuðum mæðinni eftir stigagönguna. Áður en ég veit af vill hinn freki og óhagganlegi ferðafélagi minn, Gunnar, fara út í rigninguna til að skoða sig um. Ég hélt nú ekki. Ekki aðeins hefði það kallað á bleytu, heldur hitt sem verra er, ég hefði þurft að ná í regnjakkann minn sem var á botninum á bakpokanum mínum. Já á botninum, og þangað hefur sólin ekki skinið síðan í Nepal. Allar mínar hugmyndir voru umsvifalaust skotnar niður, eins og að chilla í 4 tíma yfir sjónvarpinu, borða, chilla svo í aðra 4 og fara svo að sofa. Auk þess sagði hann hugsunarhátt minn út úr kortinu þegar ég óskaði þess að rútuferðin frá Hoi An hefði tekið 12 tíma en ekki 5 til að sleppa við svona nokkuð. Að endingu átti ég engra kosta völ, allt var rifið úr pokanum og við Gunni fórum út að skoða gömul hús (hann í gönguskónum hans Jónasar)! Núna liggur pokinn minn galtómur inn á herbergi, og fötin út um allt. Ég meina, hversu ósanngjarn er maðurinn eiginlega? Já Gunnar Jóhannsson, þetta er sko geymt en ekki gleymt!
Sitjum núna á netkaffi, sveittir að plana áframhaldandi ferð. Lítur út fyrir að við munum fórna Laos, og líklegast Japan og verja þeim mun betri tíma í Kína. Annars sjáum við náttúrulega bara hvað setur.
Bestu kveðjur frá Hue.
Tenglar
Myndir!
- Gunnars
- Jónasar Jónas er einnig þekktur sem Flash-Boy.
- Hrafnkells Keli er mjög næmur á fegurð hlutanna.
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ja framhald tessa ferdalags mun einkennast af laerdomsvilja og longum rutuferdum. To svo ad vid Keli seum helviti klarir karlar ta er ennta nokkrir hlutir sem vid gaetum kynnt okkur betur og munum vid gera okkar besta i ad midla teirri tekkingu beint til Islands.
Annars vil eg takka mommu fyrir ad lana mer bakpokann sinnn svo ad eg turfi ekki ad setja inni heilu daganna af leti vid ad taka alltaf allt uppur (Hennar er renndur allan hringinn eins og skolataska). Svo vil eg takka Jonasi fyrir skiptin a skonum, minir eru samt betri!
You stay classy, Iceland. I'm Gunnar Johannsson?
Gunnar Johannsson (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 11:32
Hlakka til að fá að njóta framandi kunnáttu Gunna í matargerð, sveitapönnukökurnar hljóma vel. Ég lenti í svipaðri "reynslu" með önd, Beijing öndin átti að vera svo frábær en var það svo bara ekkert. Bömmer.
Anna (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 17:15
Góð færsla Hrafnkell. Á meðan á rútubuguninni stendur er þá alltaf hægt að læra að elda. Ja, svei mér þá ef þið eruð ekki duglegir!
Og svo þetta með niðurskurð á ferðaplönum, frábært. Ég meina, þið fáið tækifæri til þess að upplifa og skoða Kína. Hvers vegna ekki að demba sér ærlega í það bara........
Þessi Te Doc hefur ekki upplifað neitt kynlífssvelti. En eitthvad hefur hann nú verið vanaður greyið fyrst hann eignaðist ekki eitt einasta barn þrátt fyrir 104 viðhöld. Christ.
Annars með skóna, já. Eru þínir virkilega betri? Ertu viss?
Og ekki nóg með að þú stelir skónum mínum félagi. Að þá stalstu lokalínunni minni fyrir teygjustökkið mitt fræga í Nepal. Við þurfum nú eitthvað aðeins að ræða málin félagi þegar á Hróaskeldu er svo loksins komið!
Eða svona næstum því..........
Fyrst þið eruð búnir að læra að elda, á þá ekki að taka eitthvað af þessari dýrlegu eldamennsku ykkar með á hróaskeldu? Dugir einn prímus? Ef ekki, látið mig þá vita......
Annars, you stay classy Gunni Gunni Jó Jó.
Laerz.
Jonas Asmundsson, 8.4.2007 kl. 04:00
Nú er ég að lesa þetta komment mitt yfir í fyrsta skipti. Mér líður eins og you know who:)
Jonas Asmundsson, 8.4.2007 kl. 04:03
Fróðlegt blogg og skemmtilegar myndir :)
Ferðalagið ykkar (fyrir utan allar blessuðu rútuferðirnar) hljómar óneitanlega meira spennandi en lærdómur hér á Fróni.. ég skipti samt ekki á pönnukökunum og páskaegginu mínu! Gleðilega páska strákar og góða skemmtun með áframhaldið
Helga Kristín (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 13:43
Getiði ekki haldið matarboð fyrir bekkinn þegar þið komið heim? Þetta hljómar allt mjög vel... Bara svo að þið vitið það þá er brjáluð snjókoma hérna á Íslandi!! Skemmtið ykkur vel og takk fyrir póstkortið ;)
Marta Rós (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.