15.4.2007 | 16:06
Víetnam - Kína
Á morgun hefst enn einn kaflinn í ferðasögunni, við förum til Kína. Komum til með að kveðja Víetnam með söknuði, enda lífið búið að vera svo assgoti gott hérna. Vitum ekki alveg við hverju á að búast í landi drekans. Búumst við því að lenda í tungumálaerfiðleikum í fyrsta skipti í ferðinni. Höfum heldur ekki enn komist yfir Lonely Planet China, og okkur finnst við vera svolítið naktir fyrir vikið.
Þónokkrir dagar liðnir frá síðustu færslu og eru helst tveir hlutir sem spila þar inní. Annarsvegar er það letin. Hinsvegar er það æði víetnamskra barna og unglinga fyrir dansleiknum Audition. Þetta æði gerir það að verkum að mjög erfitt getur reynst að finna lausar tölvur á netkaffihúsum bæjarins.
Allavegana. Ýmislegt gerst frá því síðast. Sigldum um Ha Long flóa (læt mér nægja að hlekkja inn á myndasvæði ókunns fólks, enda myndasíðan mín full sem stendur) í þrjá daga, and let me tell you, staðirnir gerast ekki mikið fallegri. Flóinn samanstendur af óteljandi klettum sem standa þverhnýptir upp úr sjónum. Gaman að segja frá því að allt þetta myndaðist þegar dreki lenti þarna með brussugangi fyrir þónokkrum þúsund árum, og ruddi landinu að mestu leyti í burtu. Okkar ágæti hóteleigandi í Hanoi bauð okkur pakkaferð um svæðið á góðu verði (innifalinn matur sem er alltaf plús fyrir tvo sísvanga Íslendinga). Hópurinn sem við ferðuðumst með var skrautlegur og skemmtilegur, og innihélt allt litrófið. Allt frá Kanadamanninum sem vann við að hanna skemmtigarða til stóra ísraelska atvinnuhermannsins. Jafnaldrar okkar frá Englandi, Alex og Chris, voru líka afar hressir, en hressastar voru þó vinkonur okkar Sarah og Emma.
Þær síðastnefndu eru einmitt búnir að elta okkur alla leiðina frá Ho Chi Minh City, með þeim krókaleiðum sem rútukerfi landsins býður upp á. Nú eru þær hinsvegar farnar til Laos svo við eigum því miður ekki von á að sjá þær í bráð. Ekki laust við söknuð af okkar hálfu enda alltaf eftirsjá af góðum ferðafélögum. Komið í ljós í þessari ferð að Ástralar eru alveg með því hressasta. Reyndum að selja þeim Hróarskeldu hugmyndina, og ég er ekki frá því að það hafi tekist. Við erum allavegana búnir að kaupa okkar miða!
Þessa stundina erum við staddir í hinum gullfallega fjallabæ Sapa, rétt við landamæri Kína. Tilfinningin er svolítið eins og að vera kominn aftur til Nepal, því hér allt í kring eru fallegar gönguleiðir um sveitahéruðin, til afskekktra "fjalla-minnihlutahópa" eins og Víetnamarnir kalla þá. Vöknuðum fyrir 9 í morgun (sem gerist ekkert sérstaklega oft) og skelltum okkur í góða dagsgöngu út í sveit til eins af þessum hópum. Við, verandi sjálfstæðir ferðalangar (nú eða nískir) þvertókum fyrir það að hafa með okkur leiðsögumann, en sveitavegirnir eiga að vera nokkuð ruglandi. Við Gunni rötum náttúrulega ekki neitt, og gerum engar sérstakar ráðstafanir til þess, en sem betur fer eru hæfileikar okkar í því að ramba á hlutina einstakir. Komumst því á leiðarenda og heim aftur eftir Víetnömsku moldarstígunum. Restinni af deginum höfum við svo eitt í eintóma vitleysu.
Við erum semsagt á lífi og hressir, og enn ekki komnir með nóg af hvor öðrum. Framundan enn ein næturrútan, en í þetta sinn með rúmum en ekki lítt hallandi sætum. Gunni hendir svo inn hressu bloggi frá Kunming í Kína, þangað sem förinni er heitið.
Bestu kveðjur frá Sapa.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggfærslur 15. apríl 2007
Tenglar
Myndir!
- Gunnars
- Jónasar Jónas er einnig þekktur sem Flash-Boy.
- Hrafnkells Keli er mjög næmur á fegurð hlutanna.
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar